Undanfarin ár hefur Alvican fengið ýmis krefjandi verkefni frá notendum…

Gerum Ísland aldursvænt land
Lýðfræðilegar áskoranir hafa í dag mikil áhrif á heilbrigðiskerfi heimsins. Íslenska þjóðin er ekki undanskilin þeim áskorunum en þjóðin er að eldast hratt og lífslíkur hafa aukist umtalsvert síðustu áratugi. Sá hópur sem vex hvað hraðast er eldra fólk, 67 ára og eldra. Samkvæmt mannfjöldaspá sem Hagstofan gerði fyrir nokkrum árum mun mannfjöldi aukast um 33% á næstu 40 árum hér á landi. Í dag eru 5 vinnandi aðilar á móti hverjum eldri borgara en eftir um 20 ár verða aðeins 2 vinnandi aðilar á móti hverjum eldri borgara.
Ýmsar áskoranir fylgja þessari mannfjöldaþróun, til dæmis sú að ef fjöldi aldraðra fer fram úr fjölda yngra fólks getur það haft í för með sér að erfiðlega getur reynst að sinna aðhlynningu eldra fólks. Heilbrigðiskerfið, eins og það er uppbyggt núna, mun ekki hafa innviði til að takast á við þetta verkefni. Staðan er raunar sú að nú þegar vantar bæði fjármagn en ekki síður starfsfólk til að vinna þau störf sem til þarf.
Án velferðartækni tryggjum við ekki hágæða velferðarkerfi
Velferðartækni er mikilvæg lausn til þess að mæta þessum framtíðar áskorunum samfélagsins. Til nánari skýringar þá er velferðartækni öll sú tækni sem á einn eða annan hátt bætir líf þeirra sem hennar þarfnast og auðveldar öldruðum að búa í sjálfstæðri búsetu. Hún tengir saman starfsmenn í umönnun, notendur og aðstandendur og gerir þá virkari þátttakendur í framkvæmd þjónustunnar. Dæmi um velferðartæknilausnir eru lyfjaskammtarar, sjálfvirkar hurðarlæsingar, GPS-öryggishnappar og hitamyndavélar sem byggja á gervigreind og senda skilaboð ef einstaklingur t.d. dettur inni á baðherbergi, en þar gerast einmitt flest slys.
Að mati Halldórs S. Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Öldrunarþjónustu Akureyrar, sem hefur verið leiðandi í innleiðingu velferðartæknilausna hér á landi, mun velferðartækni gera fólki betur kleift að búa lengur í eigin húsnæði og minnka þörf fyrir þjónustu starfsfólks. Heppilegast er og stefnt er að því að fólk búi sem lengst í eigin húsnæði enda hafa rannsóknir sýnt að fólk vill það helst. Markmið velferðartækni er því að veita þjónustu á heimilum fólks og stuðla þannig að hagræðingu og betri nýtingu stofnanarýmis.
Hjúkrunarheimili framtíðarinnar
Formleg aðstoð frá opinberum aðilum eins og heimilishjálp og heimahjúkrun kemur til þegar aðstæður breytast hjá eldri borgunum. Heilsubrestir, veikindi, slys og fráfall maka geta gert það að verkum að aðstæður breytast. Aldraðir sem búa í sjálfstæðri búsetu þurfa þá að aðlagast og sækja sér aðstoð bæði frá aðstandendum og opinberum aðilum. Þetta tímabil í lífi eldri borgara getur einkennst af áhyggjum, óöryggi og óvissu. Ein stærsta ákvörðun á þessu lífskeiði er að gefa eftir sjálfstæða búsetu en þegar einstaklingur flytur inn á hjúkrunarheimili, þá er ekki aftur snúið til baka og er hjúkrunarrými á hjúkrunarheimili skilgreint sem síðasta heimili einstaklinga sem þangað koma.
Í máli landlæknis árið 2018 kom fram að vanræksla ódýrari þjónustuúrræða myndaði umfram og óþarfa eftirspurn eftir dýrustu þjónustuúrræðunum með tilheyrandi flöskuhálsum, sóun á fjármunum og þjónusturofi í vegferð einstaklingsins. Þetta er m.a. vegna þess að kerfið byggir meira á þörfum stofnana en ekki á þörfum einstaklinga/þjónustuþega. Hægt er að gera töluvert betur í að aðstoða aldraða einstaklinga til að dvelja lengur heima sem og mæta þörfum þeirra á réttum tíma þegar á þarf að halda.
Innleiðing velferðartækni hefur í för með sér sparnað fyrir einstaklinga, ríkið og sveitarfélögin. Lausnir velferðartækninnar auka öryggi og auðvelda öldruðum að búa við aukið eftirlit í sjálfstæðri búsetu. Þeir aðilar sem nota velferðartæknilausnir eru líka líklegri til að fá aðstoð fyrr ef neyðarástand kemur upp á heimili þeirra og því líklegra að slys sem eiga sér stað á heimilinu verði ekki jafn alvarleg. Vissulega er ekki er hægt að tryggja að fólki geti búið utan stofnana allt sitt líf þrátt fyrir að notast við þær velferðartæknilausnir sem í boði eru en hægt er að gera sér í hugarlund að einstaklingur geti seinkað flutningi á hjúkrunarheimili um nokkur ár.
Á borgarafundi í Kastljósi fyrir áramót kom fram að kostnaður samfélagsins við hvern aðila sem er á hjúkrunarheimili væri um 13 milljónir króna á ári. Það að fresta því um eitt ár að þúsund eldri borgarar fari á hjúkrunarheimili sparar því samfélaginu 13 milljarða króna á hverju ári. Í sama sjónvarpsþætti í síðasta mánuði kom fram að hægt væri að skipuleggja átta þjónustuheimsóknir til íbúa sem búa í eigin húsnæði á hverjum degi fyrir það fjármagn sem kostar að reka hjúkrunarrými fyrir einn einstakling.
Aukin tækniþekking aldraðra
Í þeim heimsfaraldri sem hefur geisað síðustu mánuði hafa aldraðir verið mikið einangraðir og þurft að þola það að hafa minni bein samskipti við sína nánustu. Ljóst er þó að við það hefur orðið mikil aukning á notkun snjalltækja hjá þeim hópi til að hafa samskipti við fjölskyldu og vini og því má telja líklegt að tækniþekking eldri borgara hafi aukist á þessum undarlegu tímum. Því ætti nú að vera gott tækifæri fyrir innleiðingu á velferðartækni. Mikilvægt er að nýta það tækifæri til að innleiða velferðartæknina í velferðarþjónustu en hér á Íslandi búum við yfir hámenntuðu fólki á sviði tækni ásamt því að hafa sterka innviði og stuttar boðleiðir. Við ættum því að hafa alla burði til að geta verið leiðandi og náð langt með velferðartækni á næstu misserum.
Ísland á að vera aldursvænt land með öflugt heilsueflandi starf og nýta velferðartæknilausnir til að auka öryggi eldri borgara og lengja sjálfstæða búsetu þeirra. Velferðartækni er betri lausn til þess að auka lífsgæði eldri borgara.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. janúar 2021.
Höfund greinar er framkvæmdastjóri Alvican ehf.