Undanfarin ár hefur Alvican fengið ýmis krefjandi verkefni frá notendum…

Alvican opnar á sænska samstarfsaðila
Fulltrúar Alvican heimsóttu sýningu sem haldin var í Kistamassen í Stokkhólmi fyrir nokkrum vikum. Sýningin bauð upp á lausnir fyrir opinbera geirann í Svíþjóð og er stærsti samkomustaður fyrir þá sem þróa heilsutæknilausnir fyrir opinbera geirann í Svíþjóð.
Alvican hefur verið í samstarfi við þróunarfyrirtækið Minifinder í nokkur ár ásamt því að vera í samtökunum HealthTech Nordic síðan 2017. Á þessari sýningu var gert samkomulag við nýtt tæknifyrirtæki frá Gautaborg sem er að hasla sér völl í heilsutækni og var ákveðið að fara í þróunarsamstarf m.a. varðandi lausnir Alvican. Vormánuðir verða því spennandi því Svíar eru lengra komnir í velferðartæknilausnum en Íslendingar og áhugavert að sjá lausnir Alvican í sænska heilbrigðiskerfinu.
Á sýningunni mátti sjá fjölmargar flottar lausnir eins og snjalllæsingar þar sem umönnunaraðilar og bráðasveit geta komist inn í híbýli eldri borgara sem þurfa aðstoð öll með sama lyklinum sem er forritaður til að ganga að íbúðinni í 30 mínútur.
Einnig var verið að kynna nýja GPS skósóla fyrir þá sem er með heilabilun en þróun á rafhlöðunni hefur tekið stórum framförum með því að vera í hvíld ef notandinn er ekki á hreyfingu.
Nokkrir nýir lyfjaskammtarar voru kynntir á sýningunni sem senda frá sér áminningar í snjallsíma og sjá til þess að gefa notandanum rétt lyf á réttum tíma, en allir eiga það sameiginlegt að vera bara með lyf í rúllum þannig að ef lyfjasamsetning notanda breytist þá þarf að farga öllum lyfjunum sem eru í lyfjaskammtaranum.
Mikið var um kynningar á GPS úrum sem ýmist voru í einfaldri mynd sem heilsuúr eða með flóknari möguleikum eins og súrefnismettunarmæli og mælir jafnvel reglulega blóðþrýsting.
Myndavélar voru einnig fyrirferðamiklar til að greina fall hjá notanda sem persónuverndarlöggjöfin á Íslandi væri líklega ekki sátt með en myndavélar sem eiga að vakta eldri borgara jafnvel upp í rúmi eða á baðherbergjum hafa ekki notið mikilla vinsælda hér á Íslandi.
Þegar rætt var við forvarsmenn þessara nýsköpunarfyrirtækja var sami rauði þráðurinn hjá þeim öllum en samþætting þjónustu við tæknilausnir hafa ekki gengið jafn hratt og þróun á tæknilausnunum og stærsta vandamálið í umönnun eldri borgara væri enn að finna út hver ætti að vera viðbragðsaðili þegar eitthvað gerist hjá þeim notendum sem eru að lengja sjálfstæða búsetu sína með heilsutæknilausnum.